Acta lögmannsstofa hefur sameinast Lögfræðistofu Reykjavíkur og tók sameiningin gildi hinn 1. apríl sl. Eigendur Acta lögmannsstofu sem eru fimm, hafa því bæst í hóp eigenda Lögfræðistofu Reykjavíkur og saman mynda sextán eigendur öfluga lögmannsstofu sem er meðal þeirra stærstu á landinu. Báðar stofurnar eru rótgrónar lögmannsstofur sem bjóða sérhæfða lögmannsþjónustu við fyrirtæki, opinbera aðila og einstaklinga. Allir lögmenn hafa víðtæka reynslu af málflutningi og almennum lögfræðistörfum, auk þess að búa yfir starfsreynslu úr íslensku viðskiptalífi og stjórnsýslu. Eigendur Lögfræðistofu Reykjavíkur eru nú sextán, þar af eru sjö með málflutningsréttindi fyrir Hæstarétti. Lögfræðistofa Reykjavíkur rekur jafnframt innheimtuþjónustu undir nafni Innheimtustofu Reykjavíkur og nýlega var sett á stofn fasteignasalan Nýhöfn.