EINSTAKLINGAR

Allt frá stofnun Lögfræðistofu Reykjavíkur höfum við lagt mikla áherslu á persónulega þjónustu og ráðgjöf til einstaklinga. Lögmenn stofunnar hafa mikla reynslu af hagsmunagæslu fyrir einstaklinga og þverfagleg þekking lögmanna stofunnar nýtist vel við slíka vinnu.

Lögmenn okkar eru reyndir málflytjendur, bæði fyrir héraðsdómum og Hæstarétti Íslands, og leggja áherslu á fagleg vinnubrögð og gagnkvæmt traust í þeim verkefnum sem þeir taka sér fyrir hendur. Við vinnslu mála og úrlausn þeirra er faglegur metnaður og heiðarleiki ávallt í fyrirrúmi.

SLYSABÆTUR

Slys gera ekki boð á undan sér og þau geta umturnað lífi okkar. Á einu augabragði getum við glatað því sem okkur þótti sjálfsagt áður; heilsunni og óskertri starfsorku. Lögfræðistofa Reykjavíkur hefur aðstoðað fjölmarga einstaklinga við að sækja bætur og þannig auðveldað þeim að komast aftur á réttan kjöl. 

Fyrsta viðtal hjá okkur er þér ávallt að kostnaðarlausu og við leggjum áherslu á að það kosti þá sem lenda í slysum ekki neitt að kynna sér rétt sinn. Hér á eftir verður fjallað um rétt hins slasaða til bóta vegna slíks tjóns og hvernig ber að tryggja að sá réttur glatist ekki heldur náist örugglega fram að fullu og öllu.

Mikilvægar fyrstu aðgerðir og viðbrögð eftir slys:

  • Skráning atvika. Skipt getur sköpum fyrir árangursríka hagsmunagæslu lögmanns fyrir tjónþola að upplýsingar varðandi slysið séu skráðar eða varðveittar með öðrum hætti á fyrsta mögulega tímamarki og með sem nákvæmustum hætti. Þetta er nauðsynlegt til þess að síðar sé unnt að færa sönnur á atvik sem þýðingu hafa í tengslum við slysið. Hér má til dæmis nefna tilkynningar til lögreglu, útfyllingu tjónstilkynninga, að vinnueftirliti eða öðrum viðeigandi opinberum aðilum sé gert viðvart, skráningu í skipsdagbók eða sambærilegar skrár o.s.frv.
  • Leita þarf til læknis hið fyrsta.  Lýsa þarf nákvæmlega áverkum og einkennum til að fá slíkar upplýsingar færðar inn í sjúkraskrá. Komi síðar fram ný einkenni sem leiða af slysinu má ekki draga að leita til læknis og tryggja þannig skráningu þeirra.
  • Halda þarf til haga öllum skjölum, t.d. kvittunum og reikningum, sem sýna fram á kostnað vegna afleiðinga slyss, svo sem vegna læknisheimsókna, lyfja, sjúkraþjálfunar o.s.frv.

Bótaréttur
Réttur slasaða til bóta getur farið eftir því með hvaða hætti slys ber að höndum. Hér verður fjallað um algengustu tegundir slysa og bótaflokka þeim tengdum.

Umferðarslys
Líkamstjón sem hlýst af notkun skráningarskyldra ökutækja leiðir til bótaréttar.  Farþegar og aðrir sem verða fyrir tjóni af þessum sökum fá tjón sitt að fullu bætt úr ábyrgðartryggingu þess ökutækis sem tjóninu veldur. Slasaður ökumaður sem sjálfur er valdur að slysi fær líkamstjón sitt bætt úr slysatryggingu ökumanns bifreiðar. Það er algengur misskilningur að ökumenn fái aðeins tjón sitt bætt ef þeir hafa verið í rétti þegar slys verður en ekki þegar þeir sjálfir eru valdir að óhappi. Það er skylt að tryggja ökumann bifreiðar með sama hætti og aðra þá sem kunna að verða fyrir tjóni vegna notkunar ökutækis. Í stuttu máli eru þannig allir þeir sem verða fyrir líkamstjóni vegna notkunar ökutækis að fullu tryggðir.

Vinnuslys
Þeir sem verða fyrir líkamstjóni vegna slysa í vinnu, eða á beinni leið til eða frá vinnu, eiga bótarétt úr launþegatryggingu. Um er að ræða kjarasamningsbundna tryggingu sem vinnuveitanda er skylt að kaupa vegna starfsmanna sinna. Sá sem slasast við vinnu getur jafnframt átt rétt til bóta frá Tryggingastofnun ríkisins.

Hljótist tjón í slysi sem vinnuveitandi ber ábyrgð á, til dæmis vegna vanbúnaðar á vinnustað, hættulegs starfsumhverfis eða mistaka samstarfsmanna, getur hinn slasaði átt rétt til bóta úr ábyrgðartryggingu vinnuveitanda. Úr ábyrgðartryggingu vinnuveitanda greiðast fullar bætur fyrir allt tjón slasaða.

Mikilvægt er að hafa í huga að tilkynna þarf Vinnueftirliti Ríkisins um vinnuslys. Vinnuveitenda er að lögum skylt að tilkynna um slys. Þetta bregst hins vegar oft og þarf hinn slasaði þá að gæta þess að fylgja því eftir.

Vinnuslys á sjó
Sjómaður sem slasast við vinnu sína um borð í skipi á rétt til fullra bóta vegna afleiðinga slyssins óháð því hvort slysið megi rekja til vanbúnaðar um borð eða mistaka starfsmanna. Útgerð skips ber að kaupa ábyrgðartryggingu vegna áhafnar sinnar.

Frítímaslys
Í daglegu lífi geta óhöpp gerst og fólk slasast án þess að slysið verði rakið til vanrækslu eða mistaka annarra. Slys sem verða utan vinnutíma og tengjast ekki notkun ökutækja, kallast yfirleitt frítímaslys. Margir eiga rétt til bóta vegna frítímaslysa úr fjölskyldutryggingum tryggingafélaga. Slíkar tryggingar ná yfirleitt til heimilisfólks tryggingartaka, þ.e. þeirra sem búa á heimili hans og hafa þar lögheimili. Þá gera ýmsir kjarasamningar ráð fyrir hugsanlegum bótarétti vegna slysa í frítíma. Ef frítímaslys verður rakið til ófullnægjandi aðbúnaðar fasteignar eða hlutar eða ef slys verður við varasamar, jafnvel beinlínis hættulegar, aðstæður á tilteknu svæði, getur slysið eftir atvikum fallið undir ábyrgðartryggingu þess sem skylda til umsjónar og eftirlits með viðkomandi fasteign, hlut eða svæði hvílir á.

Hvað svo?

  • Tekjutap. Tjónþoli sem verður óvinnufær vegna slyss og tapar þannig launatekjum á að öðru jöfnu rétt á að fá tekjutapið bætt frá tryggingafélagi þegar réttinum til launa frá vinnuveitanda sleppir.
  • Útlagður kostnaður slasaða er bættur, meðal annars komugjöld til lækna, lyfjakostnaður og sjúkraþjálfun.

Að leita til lögmanns
Tjónþoli hefur mikla hagsmuni af því að vel sé haldið á hagsmunum hans alveg frá því slys verður. Það telst vera hluti af tjóni slasaða að verða fyrir kostnaði af því að leita sér aðstoðar lögmanns. Kostnaður vegna hagsmunagæslu lögmanns fæst því bættur samhliða öðru tjóni ef bótaskylda er fyrir hendi og greitt er út úr tryggingu. Hlutverk lögmanns tjónþola er að gæta hagsmuna hans og tryggja rétt hans í hvívetna. Tjónþoli sjálfur á oft fullt í fangi með að takast á við breytingar sem verða á lífi hans og högum eftir slys. Orku hans og tíma er best varið í að endurhæfast svo hann megi ná sem bestri heilsu á ný. Tjónþoli á ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því að tryggja fjárhagslega afkomu sína og fjölskyldu sinnar í kjölfar slyss. Það er lögmannsins að gæta þeirra hagsmuna. Til að þjónusta lögmanns gagnist tjónþola sem best er rétt að hann leiti aðstoðar hans hið fyrsta.

Rekstur slysamála

Hér er gefið almennt yfirlit yfir rekstur slysamála frá upphafi og þangað til bætur eru greiddar út.

  • Tjónþoli kemur í viðtal hjá lögmanni. Hann veitir munnlegar upplýsingar um slysið, afleiðingar þess og annað sem máli kann að skipta fyrir framvindu málsins. Lögmaður ræðir réttarstöðu tjónþola og veitir ráð um nauðsynleg næstu skref. Það er veigamikið hlutverk lögmanns að afla nauðsynlegra gagna, m.a. frá læknum og sjúkrastofnunum, sem nýta má við að færa sönnur á tjón tjónþola. Í þeim tilgangi veitir tjónþoli lögmanni nauðsynlegt umboð til gagnaöflunar.
  • Lögmaður tilkynnir um hagsmunagæslu sína fyrir tjónþola vegna slyssins til allra þeirra aðila sem kunna að vera bótaskyldir gagnvart slasaða. Oft getur slasaði átt bótarétt hjá fleiri en einum aðila vegna sama slyss. Það er hlutverk lögmannsins að gæta þess að hvergi glatist bótaréttur sem tjónþoli kann að eiga.
  • Lögmaður hefur það hlutverk að innheimta bætur vegna tímabundinnar óvinnufærni, þegar sleppir rétti til launa frá vinnuveitanda. Einnig ber lögmanni að krefja um greiðslu á ýmsum læknis- og sjúkrakostnaði sem fellur til hjá slasaða eftir slysið.
  • Hvenær er tímabært að meta afleiðingar slyss? Það getur verið afar misjafnt og veltur einkum á því hversu alvarlegar afleiðingar slyssins eru. Sex mánuðum eftir slys þykir í flestum tilvikum tímabært að afla lokavottorðs frá læknum. Það er þó alls ekki algilt. Endanlega er það undir læknum komið hvort þeir telji á viðkomandi tímamarki nægjanlegar forsendur til að gefa út slíkt vottorð.
  • Þegar vottorð og gögn sem aflað hefur verið þykja gefa glögga mynd af varanlegum afleiðingum slyss og ástandi tjónþola til framtíðar litið telst vera tímabært að meta tjónið. Til að framkvæma örorkumat veljast hlutlausir aðilar, læknar eða lögfræðingar, sem aðilar málsins, yfirleitt tjónþoli og tryggingafélag, koma sér saman um að fá til verksins. Nefna má að við val á matsmönnum er tjónþola yfirleitt mikill akkur í sérþekkingu reynds lögmanns á sviði skaðabótaréttar.
  • Grundvöllur örorkumatsins er þau gögn sem lögmaðurinn hefur aflað, ásamt viðtali matsmanna við tjónþola og læknisskoðun sem fram fer á matsfundi.  Áður en kemur að matsfundi kallar lögmaður tjónþola til sín og undirbýr hann vandlega fyrir matsfundinn, hvers megi vænta og mikilvægi þess að halda til haga öllu því sem máli skiptir. Algengt er að tjónþoli óski eftir því að njóta liðsinnis lögmanns á matsfundi. Eðlilegt og sjálfsagt er að slasaði óski þess.
  • Matsmönnum er ætlað að meta afleiðingar slyss samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993. Hin lögfræðilegu hugtök sem um er að ræða eru a) tímabil tímabundinnar óvinnufærni, b) tímabil þjáninga, c) hvenær ekki má vænta frekari bata hjá tjónþola eða hvenær heilsufar hans telst orðið stöðugt, d) varanlegur miski, sem er mat á líkamlegum og/eða andlegum afleiðingum slyss og e) varanleg örorka, sem er áhrif slyss á möguleika slasaða til að afla tekna í framtíðinni.
  • Þegar örorkumat liggur fyrir, oft fjórum til átta vikum eftir matsfund, fer lögmaður yfir matið með slasaða. Hann skýrir út fyrir tjónþola þýðingu matsniðurstaðna og fjallar um hvort þær geti talist ásættanlegar. Teljist matið óviðunandi, tjónið vanmetið eða ekki hafi verið tekið fullt tillit til sjónarmiða slasaða, þá gerir lögmaður slasaða grein fyrir þeim úrræðum sem þá standa til boða. Þyki matið gefa raunsæja mynd af tjóni slasaða, þá reiknar lögmaðurinn út tjón slasaða í samræmi við örorkumatið og sendir kröfubréf á bótaskylda aðila.
  • Þegar bætur hafa verið greiddar út og uppgjör hefur farið fram við tjónþola telst málinu að jafnaði lokið.
STJÓRNSÝSLU- OG RÉTTARVÖRSLUSVIÐ

Lögmenn Lögfræðistofu Reykjavíkur hafa mikla og víðtæka reynslu af þeim málaflokkum sem koma til úrlausnar hjá stjórnvöldum hvort heldur innan stjórnsýslu ríkis eða sveitarfélaga. Þjónusta stofunnar felst í öllu því sem við kemur rekstri stjórnsýslumáls. Við gætum að rétti einstaklinga og lögaðila gagnvart stjórnvöldum og tryggjum að réttur þeirra sé virtur lögum samkvæmt.

Sem dæmi má nefna ráðgjöf og þjónustu í samskiptum við stjórnvöld, aðstoð við kvartanir til Umboðsmanns Alþingis og hagsmunagæslu í ágreiningsmálum jafnt á vettvangi stjórnvalda sem dómstóla. Þá hafa lögmenn stofunnar langa reynslu af verjendastörfum bæði á rannsóknar- og dómstigi. Þekking lögmanns á réttindum sakbornings er mikilvæg svo honum sé tryggð sú réttláta málsmeðferð sem öllum ber.

SIFJA- OG SKIPTARÉTTUR

Þrátt fyrir að fjölskyldan sé það mikilvægasta í lífi flestra geta álitaefni um réttarstöðu einstaklinga vaknað í kjölfar dauðsfalls, skilnaðar eða slita á sambúð. Við úrlausn slíkra persónulegra og oft viðkvæmra mála leggjum við mikla áherslu á trúnað og virðingu við viðskiptavini okkar.

Við höfum áratuga reynslu af hagsmunagæslu fyrir einstaklinga á sviði sifjaréttar við meðferð mála hjá sýslumanni og fyrir dómstólum. Auk þess hafa lögmenn stofunnar víðtæka reynslu af allri skjalagerð á sviði sifjaréttar, svo sem gerð erfðaskráa, sambúðarsamninga og kaupmála, sem komið geta í veg fyrir ágreining þegar og ef á reynir.

Einnig höfum við víðtæka reynslu af því að aðstoða vegna fjárskipta og veita annars konar lagalega ráðgjöf í kjölfar skilnaðar eða sambúðarslita, hvort sem er vegna fjárhagsmálefna eða atriða sem varða forsjá og umgengni. Þá veita lögmenn stofunnar ábyggilega þjónustu við uppgjör dánarbúa, bæði við einkaskipti og opinber skipti.

SAMNINGA- OG KRÖFURÉTTUR
Allt frá upphafi hefur Lögfræðistofa Reykjavíkur lagt mikla áherslu á samningsgerð og samningarétt. Lögmenn stofunnar hafa víðtæka þekkingu á sviði samningaréttar og veita faglega þjónustu við gerð samninga og ráðgjöf við að útkljá álitaefni sem geta komið upp, hvort sem er milli aðila eða fyrir dómstólum.

Mikilvægt er að vandað sé til verka strax við upphaf samskipta og við samningsgerð, slíkt kemur oftar en ekki í veg fyrir að vandamál eða álitaefni komi upp þegar reynir á samning.

Meðal verkefna sem við sinnum til jafns við samningsgerð og samningarétt, er ráðgjöf á sviði kröfuréttar um allt varðandi efndir samninga og við gætum hagsmuna samningsaðila vegna lögvarinna réttinda þeirra sem leiða af kröfu samkvæmt samningi. Einnig veitum við ráðgjöf og þjónustu vegna kaupsamninga, leigusamninga, vinnu- og starfsmannasamninga, samninga á sviði sifja- og erfðaréttar eða samninga um hvaðeina annað sem mönnum er frjálst að semja um sín á milli.