• Lögmaður skal ætíð gefa skjólstæðingi hlutlægt álit á málum hans

  • Lögmaður skal vera óháður í starfi og standa vörð um sjálfstæði lögmannastéttarinnar

  • Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu

  • Engan má svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum

Gildi LR

Sjálfstæði Staða sjálfstæðrar og óðháðrar lögmannastéttar er ein af forsendum réttarríkisins og besta trygging fyrir virkri vörslu lýðréttinda þegnanna. Lögmenn verða að vera sjálfstæðir í störfum til að gegna hlutverki sínu sem réttargæslumenn og málsvarar. Ekki eingöngu ber lögmanni að sjá til þess að óviðkomandi hagsmunir hafi ekki áhrif á starfsrækslu sína fyrir skjólstæðing heldur ber lögmanni einnig að vera sjálfstæður gangvart skjólstæðingi sínum. Skyldur lögmanna takmarkast því ekki við að framkvæma fyrirmæli skjólstæðinga sinna innan marka laga og reglna. Lögmaður verður að þjóna hagsmunum réttlætisins eins vel og hagsmunum þeirra sem falið hafa honum að gæta réttinda sinna og frelsis og það er skylda hans að vera ekki einvörðungu málsvari skjólstæðings síns heldur einnig ráðgjafi.

Lögmenn LR koma úr ólíkum áttum og hafa mismundandi skoðanir á mönnum og málefnum en í ráðgjöf sinni og réttarvörslu fyrir skjólstæðinga sína eru lögmenn LR ætíð sjálfstæðir og óháðir. Hjá LR hefur því aldrei verið hægt að panta fyrirfram ákveðið lögfræðiálit enda hefur ráðgjöf ekkert gildi ef hún er veitt til að þjónka,  til að þóknast, í þágu eigin hagsmuna eða fyrir utanaðkomandi þrýsting.

Trúnaður  Trúnaðarskylda lögmanns við skjólstæðing sinn er grundvallarregla í öllum störfum lögmanna því skjólstæðingar verða að geta treyst því að lögmaður haldi trúnað um þau málefni sem leynt eiga að fara. Lögmaður skal aldrei án endanlegs dómsúrskurðar, sem beint er að honum sjálfum, eða skýlauss lagaboðs, láta óviðkomandi aðilum í té gögn og upplýsingar, sem lögmaður hefur fengið í starfi um skjólstæðing sinn eða fyrrverandi skjólstæðing.

Virðing, heiðarleiki og heilindi eru faglegar skyldur lögmanna sem lögmenn LR fylgja í öllum sínum störfum, hvort sem það er gagnvart skjólstæðingum sínum, dómstólum, stjórnvöldum, gagnaðilum eða öðrum lögmönnum.

Fagmennska  Lögmaður skal ekki taka að sér önnur verkefni en þau sem hann er fær um að sinna af kunnáttu og fagmennsku.

Starfsreynsla lögmanna LR er áratugalöng og hefur getið af sér yfirgripsmikla sérþekkingu á ráðgjöf og lögfræðiþjónustu sem við kemur flestum sviðum lögfræðinnar. Reynsla og fagþekking er hámörkuð með miðlun upplýsinga og reynslu á milli starfsmanna stofunnar og samstarfi við lögfræðistofur um allan heim. Þannig veitir LR skjólstæðingum sínum sem allra bestu lögfræðiþjónustu hvar sem er í heiminum.

Samfélagsleg ábyrgð  Lögmenn hafa skyldum að gegna gagnvart almenningi og  samfélaginu. Lögmönnum ber að efla rétt og hrinda órétti. Í því felst m.a. að stuðla að því að öllum sé gert kleift að njóta aðstoðar sjálfstæðs óháðs lögmanns við gæslu réttinda sinna gagnvart yfirvöldum og öðrum áhrifavöldum í samfélaginu.

Skjólstæðingar LR koma úr ólíkum áttum og búa við mismunandi efni. Kappkostað er að allir skjólstæðingar LR fái notið réttar síns óháð efnahag. LR hefur jafnframt um árabil veitt ókeypis lögfræðiráðgjöf í samstarfi við Rauðakrosshúsið þar sem skjólstæðingum Rauðakrosshússins er boðið upp á viðtalstíma einu sinni í viku. Lögmenn LR eru einnig virkir þátttakendur í  lögmannavakt LMFÍ sem býður upp á lögfræðiráðgjöf fyrir almenning að kostnaðarlausu.