• Lögmaður skal vera óháður í starfi og standa vörð um sjálfstæði lögmannastéttarinnar

  • Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu

  • Lögmaður skal ætíð gefa skjólstæðingi hlutlægt álit á málum hans

  • Engan má svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum

Þjónusta við fyrirtæki


Lögmenn Lögfræðistofu Reykjavíkur hafa víðtæka þekkingu og reynslu af viðskiptalífinu. Meðal fastra viðskiptavina LR eru mörg af stærri og virtari fyrirtækjum landsins, auk þess sem stofan keppist við að aðstoða smærri fyrirtæki sem eru að koma undir sig fótunum. Þá sinnir stofan fjölþættum verkefnum fyrir sveitarfélög og opinberar stofnanir. Lögfræðistofa Reykjavíkur veitir alhliða ráðgjöf, bæði varðandi almenn sem og sérhæfðari lagaleg atriði sem upp koma í fyrirtækjarekstri. Starfsreynsla lögmanna LR er áratugalöng og hefur getið af sér yfirgripsmikla þekkingu á allri ráðgjöf og lögfræðiþjónustu sem við kemur rekstri fyrirtækja hér á landi sem erlendis. Auk þess hefur stofan traust samstarfstengsl við margar öflugar erlendar lögmannsstofur sem sérhæfa sig í þjónustu við fyrirtæki.

Fjármála- og félagaréttur.
Regluverk á sviði fjármála- og félagaréttar eru flókin og stækka ört samhliða vaxandi alþjóðlegri starfsemi fyrirtækja. Lögmenn Lögfræðistofu Reykjavíkur hafa viðamikla reynslu af ráðgjöf og annarri lögmannsþjónustu á sviði fjármála- og félagaréttar. Á sviði fjármálaréttar má nefna fjárhagslega endurskipulagningu, lánasamninga, áreiðanleikakannanir, verðbréfaviðskipti og aðra bankastarfsemi. Á sviði félagaréttar veitir stofan fyrirtækjum af öllum stærðum og gerðum trausta alhliða þjónustu, þar á meðal um val á félagaformi og stofnun félags, yfirtöku félaga, breytingar á skipulagi og hlutafé og fleira. Þá tekur stofan að sér öll verkefni varðandi greiðslustöðvanir og nauðasamninga með tilheyrandi skjalagerð og tilkynningum til yfirvalda. Lögmenn stofunnar aðstoða einnig við lausn ágreiningsmála á milli fyrirtækja sem og hluthafa og stjórna félaga.

Samningsgerð og samningaréttur.
Mikilvægt er að vandað sé til samningsgerðar við upphaf samstarfs og viðskipta.
Vönduð vinnubrögð eru til þess fallin að leiða til farsæls samstarfs og viðskipta. Þau koma að öðru jöfnu í veg fyrir vandamál og álitaefni í kjölfar samningsgerðar og þegar á efndir samnings reynir. Lögfræðistofa Reykjavíkur hefur langa og giftusama reynslu á sviði samningsgerðar og veitir alhliða þjónustu á öllum sviðum samningaréttar milli fyrirtækja. Meðal verkefna sem LR sinnir að staðaldri má nefna sem dæmi samninga um kaup og sölu eigna, samstarfssamninga milli fyrirtækja, samningsgerð vegna útboða og samninga varðandi hugverkaréttindi og einkaleyfi en fjölþætt verkefni stofunnar ná annars yfir allt svið samningaréttarins.

Samkeppnisréttur.
Félögum sem þátt taka í virku viðskiptaumhverfi nú til dags er mikilvægt að gæta hagsmuna sinna gagnvart keppinautum og samkeppnisyfirvöldum. Huga þarf að mörgu í samskiptum á samkeppnismarkaði svo ekki sé vikið frá regluverki samkeppnisréttar. Lögfræðistofa Reykjavíkur býr yfir mikilli reynslu og þekkingu á sviði samkeppnisréttar. Stofan gætir hagsmuna stórra og smárra félaga á því sviði, til dæmis í yfirtökum og hagsmunagæslu vegna samruna fyrirtækja, bæði gagnvart öðrum félögum og samkeppnisyfirvöldum. Þá veitir stofan alhliða lögmannsþjónustu og ráðgjöf í tengslum við samstarfssamninga milli fyrirtækja, svo gætt sé að bannákvæðum samkeppnislaga um samkeppnishamlandi samninga, misnotkun á markaðsráðandi stöðu fyrirtækja, sem og öðrum atriðum á sviði samkeppnisréttar sem gæta þarf að í þeim tilvikum.